Ferill 197. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 197 . mál.


218. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 78 23. desember 1980, um jöfnunargjald, sbr. lög nr. 108/1990.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



1. gr.

    Í stað orðanna „31. desember 1991“ í 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna komi: 30. júní 1992.

2. gr.

    2. gr. laga nr. 108/1990 falli brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1992.
    Frá og með 1. júlí 1992 falla lög nr. 78/1980, um jöfnunargjald, með síðari breytingum, úr gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á árinu 1978 voru samþykkt á Alþingi lög um jöfnunargjald. Lögin voru tímabundin og var ætlað að gilda til 31. desember 1980. Jöfnunargjaldið var lagt á innflutning sams konar iðnaðarvara og framleiddar voru hér á landi í þeim tilgangi að vega upp á móti þeim söluskatti sem varð hluti framleiðslukostnaðar þessara vara samkvæmt þágildandi söluskattslögum. Gert var ráð fyrir því við setningu laganna um jöfnunargjald að einungis yrði um tímabundna ráðstöfun að ræða þar sem stefnt skyldi að setningu laga um virðisaukaskatt í byrjun árs 1981 en með upptöku virðisaukaskatts yrði eytt uppsöfnunaráhrifum þeim sem fólgin voru í söluskattskerfinu.
    Jöfnunargjaldinu var m.a. ætlað að jafna þá röskun sem þátttaka Íslands í fríverslun hafði óhjákvæmilega í för með sér með minnkandi tollvernd á íslenskar iðnaðarvörur og því að virðisaukaskattur hafði verið tekinn upp í helstu viðskiptalöndum okkar.
    Ekki varð af upptöku virðisaukaskatts á árinu 1981. Ríkisstjórnin lagði því til við Alþingi að ný lög um jöfnunargjald yrðu sett ótímabundið. Jafnframt var gildissvið gjaldsins aukið og það nú lagt á allar vörur sem tollar höfðu verið felldir niður af.
    Á síðasta þingi var gildistími jöfnunargjalds framlengdur til ársloka 1991. Í greinargerð með frumvarpi um þá lengingu segir m.a. svo:
    „Með upptöku virðisaukaskatts hér á landi 1. janúar 1990 varð mikil breyting á samkeppnisskilyrðum iðnaðarins. Íslensk iðnfyrirtæki sitja nú að mestu leyti við sama borð og helstu keppinautar þeirra að því er varðar uppsöfnun opinberra gjalda í framleiðslu þeirra. Þó eru sterk rök fyrir því að jöfnunargjald verði ekki afnumið í upphafi næsta árs eins og rætt hefur verið um, heldur verði það lækkað í áföngum á árinu þannig að það verði horfið í upphafi ársins 1992. Það er lagt til í þessu frumvarpi.
    Uppsöfnunaráhrifa söluskatts gætir enn í rekstrarkostnaði iðnaðar af þrem orsökum, þ.e. vegna fasteigna sem komu til fyrir upptöku virðisaukaskatts, vegna viðhalds og endurbóta véla og vegna flutningatækja. Þjóðhagsstofnun hefur lagt mat á hversu mikil þessi áhrif eru. Samkvæmt niðurstöðum Þjóðhagsstofnunar er áætlað að uppsafnaður söluskattur hafi numið 5,6% af framreiknuðu stofnverði rekstrarfjármuna í iðnaði í árslok 1989. Söluskattur í afskriftum í hlutfalli við rekstrarkostnað er áætlaður rúmlega 0,2%. Að teknu tilliti til 6% raunvaxta af söluskattshluta rekstrarfjármuna verður uppsafnaður söluskattur um 0,6% af rekstrarkostnaði iðnaðar. Samkvæmt Þjóðhagsstofnun er endingartími þeirra fjármuna sem hér um ræðir allt frá örfáum árum til 25 ára. Mest munar þó um fasteignir sem hafa endingartíma á bilinu 12–25 ár, miðað við gefnar forsendur.“
    Ekki er með nákvæmni unnt að segja til um hvenær uppsöfnunaráhrifa af söluskatti hættir að gæta og ákvörðun um lokadag jöfnunargjalds getur því ekki verið einhlít. Með tilliti til þess og brýnnar tekjuþarfar ríkissjóðs á næsta ári er hér lagt til að jöfnunargjald haldist óbreytt, þ.e. 3% til miðs næsta árs.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Gert er ráð fyrir að jöfnunargjaldinu verði haldið óbreyttu fram á mitt næsta ár. Tekjur af gjaldinu þannig eru áætlaðar 350 milljónir króna.

Um 2. gr.


    Lagt er til að jöfnunargjald verði fellt niður 1. júlí 1992.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.